1. deildar lið sýnir hvar það á heima

Ég get ekki tekið undir orð þjálfara liðanna tveggja þótt ég hafi aðeins átt kost á að fylgjast með leiknum í útvarpi. Hér er verið að bera saman svo gerólíka hluti að samanburðurinn getur aðeins orðið Fjölnismönnum í hag. Hins vegar eru þeir að sýna spilamennsku sem aðeins á heima í 1. deild, stórliðin eru að vinna á allt öðrum kalíber. Þetta mun koma niður á liðinu næsta sumar þegar nýjabrumið er horfið.
mbl.is Sjaldan séð lið Fjölnis leika jafn vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spjátrungsháttur

Gat vínið ekki heitið íslensku nafni? Chateau er afglapalegt nafn og eitthvert snobb til að hefja upp þann viðbjóð sem svona birkivín hlýtur að vera. Ég fagna því þó að skógræktin hyggist ekki fara út í vínframleiðslu, nægt er bölið fyrir. Það er löngum vitað að Íslendingar kunna ekkert með áfengi að fara, síst af öllu léttvín sem í minni sveit kallaðist hommadjús. Áfengið átti sín ár af minni ævi sem ég fæ aldrei aftur og yrði ég fyrst til að fagna því að þetta fíkniefni yrði gert útlægt og bannað með lögum.
mbl.is Birkivínið ljúffengt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sniðgöngum heldur fatlaða

Mér finnst að listamenn ættu nú að sýna samstöðu og sniðganga fatlaða sem greinilega hafa horn í síðu Stiller, sem veit bara ekki betur. Síðan hvenær er ósmekklegt að gera grín að fötluðum, sér í lagi andlega fötluðum? Hver man ekki eftir myndum eins og One flew over the coocoo's nest, Girl interrupted og Something about Mary? Aldrei sniðgekk fólk þessi stykki og nú eru fatlaðir farnir að færa sig heldur betur upp á skaftið. Ég ætla að fara á þessa mynd í bíó þótt ég kjósi jafnan heldur sjónvarpið, bara vegna Ben Stiller.
mbl.is Fatlaðir sniðganga Ben Stiller
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

N1 á hringinn og leggur hann niður

Tilgangslausustu vegaframkvæmdir Íslandssögunnar má nú líta í Hrútafirði og þetta eru afleiðingarnar. Tveimur merkum áningarstöðum ferðamanna gegnum tíðina er lokað og í staðinn kemur ein steingeld N1-sjoppa, eftirmynd þeirra í Reykjavík og á engan hátt með nokkrun karakter eins og þær gömlu góðu. Það er vonandi að Hermann Guðmundsson geti hlegið með Borðeyringunum 20 að þessu gríni sem Vegagerðin lætur hafa sig út í; ég sem skattgreiðandi geri það ekki.
mbl.is Búið að loka Brúarskála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óforskammað

Fyrir mér er brúðkaupið og dagurinn sem valinn er eitthvað sem ákveðið er með miklum fyrirvara, öllu er til tjaldað og vinum og vandamönnum er boðið til að samfagna. Að gera þetta svona upp úr þurru finnst mér óforskammað og særandi þeim sem leggja þrotlausa vinnu í undirbúning. Skyldi þetta verða til heilla, ég bara spyr! Mitt brúðkaup var ákveðið fast að ári áður og mánuðirnir fram að því voru notaðir vel, það er hjónaband sem hefur enst og ekki einhver skrípaleikur.
mbl.is Skyndigifting í lopapeysu og í gúmmískóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enda makalaust hve símarnir voru ódýrir

Þetta óttaðist ég lengi. Mig grunaði sitthvað þegar ég sá hve ódýrt þeir seldu símana, sömu síma og fengust í öðrum verslunum, bara mörg þúsund krónum ódýrari. Þetta hlaut að vera svikamylla, pýramídafyrirtæki eða peningaþvottastöð. Ekki gátu þeir reiknað svona rangt þegar allir aðrir reiknuðu rétt. Það var líka einhver unggæðisbragur yfir starfsfólki og óvandað til umbúnaðar. Verst að ég á hundruð ósóttra mynda og hver á nú að færa mér þær?
mbl.is HP Farsímalagerinn gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hvers í déskotanum?

Ég skil nú ekki til hvers verið er að kanna hug þjóðarinnar til þessa. Það er ljóst að mörgum er sama og fæstir hugsa út í framkvæmdina. Hvað þá er verið að setja þetta í samhengi við fyrri kannanir og reyna að lesa út úr því (sem reyndar sýnir ekki neitt) og síst af öllu að gera frétt úr þessu. Það er dýrt og tafsamt að kenna útlendingum Íslensku og allt til einskis: Þeir tala enga íslensku. Um leið og leyfið er fengið tala þeir sína útlensku og Íslendingar nenna ekki að reyna, það er til einskis að hafa samskipti við þá á stirðri íslensku. Þetta er bara hluti af landvinninga og grobb-stefnu Sjálfstæðisflokksins.
mbl.is Mikill meirihluti hlynntur íslenskunámi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Stóráfallalaust"

Ef einhvern á ekki að hlusta á um fregnir af þjóhátíð þá er það framkvæmdastjóri þjóðhátíðarnefndar eða yfirmenn lögreglu. Þeir segja frá því sem hentar ímynd hátíðarinnar best. Sannleikann segja gestir, starfsmenn í þrifum eða aðhlynningu þeirra sem verða fyrir tilefnislausum árásum, óvæntum ælum eða óæskilegu kynlífi. Ætli stóráfallalaust þýði ekki helst að ekki hafi ríkt borgarastyrjöld í bænum eða að flestir hafi möglunarlaust greitt fyrir þjónustu á svæðinu? Ég skemmti mér þó hvergi betur en á Þjóðhátið, hún er að minnsta kosti skemmtilegri en þjóðhátíð Íslendinga.
mbl.is Metfjöldi á þjóðhátíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dulargervi, Íslendingur á ferð

Ég er ekki lengi að átta mig á svikum þeim sem hér á að iðka. Þetta er enginn krasniqi-mann, þetta er Rúnar Freyr Gíslason (35 ára) og hann er úr Breiðholtinu. Ég skil ekki að hann fái ekki leikheimild, hann getur hvort eð er ekki mikið í vörn.


mbl.is „Þetta varðar mannréttindi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rætnar aðfarir

Ef eitthvað er hægt að segja um Ólaf F. Magnússon þá er það að hann kemur til dyranna eins og hann er klæddur. Það er sorglegt að verða vitni að aðförum þeim sem birtast fyrst og fremst á netinu, oftar en ekki í skjóli nafnleyndar, en einnig í borgarstjórninni. Ólafur hefur ákveðnar skoðanir og skýra stefnu, hvar sem á honum er tekið. Hann hefur svarað Kárahnjúkamálinu að mínu viti skynsamlega og það er fullt samræmi í máli hans nú og í janúar þegar línur voru lagðar. Það rímar sömuleiðis við málflutning hans í borgarráði frá þeim tíma þegar hann var óháður og á sér í raun rætur í þeim leiðindum sem viðskilnaður hans við Sjálfstæðisflokkinn urðu. Hann kemur mér fyrir sjónir sem vel gefinn og vandaður maður sem kemur sterkari undan því oki sem lagt hefur verið á hann, bæði af borgarbúum og Sjálfstæðismönnum almennt. Mér finnst kominn tími til að hans persónu sé sýnd tilhlýðileg virðing og menn ættu að skammast sín fyrir að reyna sífellt að draga embættið niður í svaðið, taki þeir það til sín sem eiga það.


mbl.is Segja borgarstjóra fara með rangt mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband